©   1994 - 2013   Jón Ingvar Jónsson Bragorðaskrá  Upphafssíða

B r a g f r æ ð i
Heiti og kenningar

Heiti eru einstök nafnorð í skáldmáli, sjaldgæf eða lítt þekkt í daglegu máli. Dæmi um heiti eru jór (hestur), gumi (maður), svanni (kona) og hauður (jörð).

Kenningar eru umritanir á hugtökum og þær samanstanda af stofni og kenniorði. Verulegt frjálsræði ríkir við val á stofni og er algengt að nota þar heiti. Kenniorðin þurfa hins vegar að vera nátengd því sem kenna skal. Þegar kenna skal konu er sjálfsagt að taka nafn konu Freys sem stofn, en það er Gerður, og nota síðan einnkennandi orð fyrir konur sem kenniorð, t.d. nælonsokka. Þannig er rétt kennt ef í stað hugtaksins kona er notuð kenningin nælonsokka Gerður. Einnig er rétt kennt þegar skip er kallað öldunaut. Sem stofn er sjálfsagt nota naut og öldu sem kenniorð, því aldan er nátengd skipum.

Heiti hafa tíðkast í íslenskum kveðskap frá fornu fari og er þau að finna í flestum greinum kveðskapar. Kenningar eru hins vegar svo til óþekktar í Eddu-kvæðum, en mjög algengar í dróttkvæðum og rímum. Séu kenningar notaðar í hófi, geta þær gefið kvæðum skemmtilegan blæ. Óhóf, eins og þekkist í dróttkvæðum og rímum, er hins vegar fráhrindandi og hefur oft gert kveðskapinn illskiljanlegan.

Jónasi Hallgrímssyni hefur ofboðið notkun kenninga í rímum og þeim til háðungar orti hann:

Vona eg / dúna / dreka / lín
á / Dáins / fleyi / náms um / haf
við gull/húna / hengi / fín
hýru/þvegið / náðar/traf.

Úr skáldskaparmálum Snorra Sturlusonar:

Þá mælti Ægir: "Hversu á marga lund breytið þér orðtökum skáldskapar, eða hversu mörg eru kyn skáldskaparins?"

Þá mælti Bragi: "Tvenn eru kyn þau, er greina skáldskap allan."

Ægir spyrr: "Hver tvenn?"

Bragi segir: "Mál ok hættir."

"Hvert máltak er haft til skáldskapar?"

"Þrenn er grein skáldskaparmáls."

"Hver?"

"Svá at nefna hvern hlut svá sem heitir. Önnur grein er sú er heitir fornöfn. In þriðja málsgrein er sú, er kölluð er kenning, ok er sú grein svá sett, at vér köllum Óðin eða Þór eða Tý eða einhvern af ásum eða álfum, ok hvern þeira, er ek nefni til, þá tek ek með heiti af eign annars ássins eða get ek hans verka nökkurra. Þá eignast hann nafnit, en eigi hinn, er nefndr var. Svá sem vér köllum sig-Tý eða hanga-Tý eða farma-Tý, þat er þá Óðins heiti, ok köllum vér þat kennt heiti, svá ok at kalla reiðar-Tý."

Eddukenningar

Í Skáldskaparmálum yngri Eddu segir Snorri Sturluson frá því hvernig kenna skuli gull, konur og menn svo eitthvað sé nefnt og er því oft talað um eddukenningar. Í dróttkvæðum og rímum voru slíkar kenningar notaðar úr hófi fram. Sigurður Breiðfjörð skrifar heldur ekki að ástæðulausu í formála Númarímna:

Eg meina, að Edda miður eigi að þéna skáldinu til léttirs en til að prýða hér og hvar verk hans, því þessa léttirs á hann ekki við að þurfa, ef honum er ekki ofgefið það nafn skáld að heita.

Eftirfarandi vísur lúta allar að hinu sama:

Edda hefur ýmsum bætt
orðaskort og vanda.
Hún er komin þúsundþætt
þjóðinni til handa.

Má ég hvísla mönnum því
mjúkt í vinar eyra:
Hún er máski hófi í
hentug eins og fleira.
Sigurður Breiðfjöð
Edda prýðir allir lýðir segja,
en hana að brúka of mjög er
eins og tómt að éta smér.
Sveinbjörn Egilsson
©   1994 - 2010   Jón Ingvar Jónsson