©   1994 - 2013   Jón Ingvar Jónsson Upphafssíða

B r a g f r æ ð i
Grunnatriði bragfræðinnar

Bragliðir

Kvæði eru saman sett úr bragliðum. Bragliðir eru líka kallaðir kveður. Hver bragliður getur verið eitt, tvö eða þrjú atkvæði. Sé bragliður eitt atkvæði getur hann einungis verið í enda ljóðlínu (undantekning) og kallast hún þá stýfð. Ef bragliður er tvö atkvæði kallast hann tvíliður en þríliður ef hann er þrjú atkvæði. Áherslan er jafnan á fyrsta atkvæði hvers bragliðar og er því talað um hnígandi tvíliði og hnígandi þríliði (undantekning). Þetta er í samræmi við hrynjandi íslensks máls, en í því eru ætíð áherslur á fyrsta atkvæði hvers orðs og aukaáhersla á því þriðja ef orð er fjögur atkvæði og aukaáhersla á fyrsta atkvæði hvers orðshluta í samsettum orðum. Ekki má nota bæði þríliði og tvíliði í einni vísu (undantekning). Í eftirfarandi dæmum eru bragliðir skildir að með skástriki en áhersluatkvæði feitletruð:

Tifum / létt á / ljóða/fótum / inn,
ljúkum / af um / reikning / þinn að / fjalla.
Stephan G. Stephansson
Augun, sem / voru sem / eldrauðar / glóðir,
eru nú / fögur og / snör eins og / þín.
Páll Ólafsson

Fyrra dæmið sýnir hnígandi tvíliði, en það síðara hnígandi þríliði. Einnig er vert að taka eftir að bragliðir geta verið myndaðir úr fleiri en einu orði og eitt orð getur myndað fleiri en einn braglið. Í fyrra dæminu mynda létt á og af um og þinn að einn braglið. Í sama dæmi myndar ljóðafótum tvö bragliði. Bragliðir eru misáhersluþungir. Fyrsti bragliður hverrar ljóðlínu er áhersluþungur en annar er áhersluléttur, sá þriðji aftur áhersluþungur og svo koll af kolli. Áhersluþungir bragliðir eru kallaðir hákveður, en áhersluléttir lágkveður. Nú skulum við feitletra hákveður, en skáletra lágkveður:

Tifum / létt á / ljóða/fótum / inn,
ljúkum / af um / reikning / þinn að / fjalla.

Augun, sem / voru sem / eldrauðar / glóðir,
eru nú / fögur og / snör eins og / þín.

Mismunandi áherslur bragliðanna eru lykilatriði við stuðlasetningu.

Oft er skotið inn í bragliði aukaatkvæðum, sem lítið ber á og er það sjálfsagt í góðu hófi.

Kveður í / runni, / kvakar í / mó
kvikur / þrasta/söngur;
eins mig / fýsir / alltaf / þó
aftur / fara í / göngur.
Jónas Hallgrímsson

Stundum er áherslulaust aukaatkvæði í upphafi ljóðlínu og nefnist það forliður:

Nú fer / ég að / lesa / lög,
læra / svik og / hrekki.
Lítið / dugar / höndin / hög
og / heiðar/leikinn / ekki.
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi

Ekki er fallegt að nota mikið af forliðum. Þar ber að gæta hófs. Þó eru forliðir stundum notaðir til að ná fram ákveðnum blæ og eru þá hluti af forminu. Slíkt er sjálfsagt.

Því / kóngar að / síðustu / komast í / mát
og / keisarar / náblæjum / falda,
og / guðirnir / reka sinn / brothætta / bát
á / blindsker í / hafdjúpi / alda.
Þorsteinn Erlingsson
Stuðlar

Með því að láta áhersluatkvæði tveggja bragliða byrja á sama bókstaf eða bókstöfum verður áherslan þyngri og er það kallað stuðlun, en viðkomandi upphafsstafur eða upphafsstafir eru kallaðir stuðlar. Um sérhljóð gildir sú regla að litið er á þá alla sem sama stafinn, þannig að a getur stuðlað við e og i getur stuðlað við í og svo framvegis. Um s gilda sérstakar reglur. Ef næsti stafur á eftir s er k, l, m, n, p eða t, skal það líka eiga við um orðin sem stuðlað er við. Þetta eru kallaðir gnýstuðlar (sk, sl, sm, sn, sp eða st).

Í hverri ljóðlínu skulu vera tveir stuðlar og verður annar þeirra að vera í hákveðu. Ekki mega vera fleiri en einn bragliður á milli stuðla (undantekning) og ekki fleiri en einn bragliður fyrir aftan síðari stuðlul nema hann sé í hákveðu, þá mega þeir vera tveir. Ef ljóðlína hefur tvo stuðla fylgir oftast þriðji stuðullinn í næstu ljóðlínu á eftir. Hann er kallaður höfuðstafur og verður að vera í fyrsta braglið. Sú ljóðlína má ekki hafa aðra stuðla. Ekki er heldur óalgengt að höfuðstöfum sé sleppt og er þá hver ljóðlína sér um stuðla. Alls ekki mega vera fleiri en tveir stuðlar í ljóðlínu sem ekki hefur fleiri en fimm bragliði.

Sáuð þið / hana / systur / mína
sitja / lömb og / spinna / ull?
Fyrrum / átti ég / falleg / gull;
nú er ég / búinn að / brjóta og / týna.
Jónas Hallgrímsson

Í fyrstu ljóðlínu eru tveir s stuðlar og í annari ljóðlínu er s höfuðstafur. Þriðja ljóðlínan er sér um stðula, f, og sú fjórða einnig, b.

Eftir farandi ljóðlína samanstendur af fimm bragliðum og stuðlarnir eru st og st (gnýstuðlar):

Stríðar / öldur / stýfði / járnuð / bringa
Einar Benediktsson

Hægt er að raða orðunum þannig að fimm réttar stuðlasetningar fáist:

1 - Stríðar / öldur / stýfði / járnuð / bringa
2 - Öldur / stríðar / stýfði / járnuð / bringa
3 - Járnuð / bringa / stýfði / stríðar / öldur
4 - Járnuð / bringa / stríðar / öldur / stýfði
5 - Járnuð / bringa / öldur / stríðar / stýfði

Hér er rétt stuðlasetning, því aldrei er of langt á milli stuðla og þegar fjöldi bragliða aftan við síðari stuðul er tveir, er síðari stuðullinn í hákveðu.

Það má líka raða bragliðum þannig að fimm rangar stuðlasetningar fáist:

1 - Stýfði / stríðar / öldur / járnuð / bringa
2 - Stýfði / járnuð / bringa / stríðar / öldur
3 - Stríðar / öldur / járnuð / bringa / stýfði
4 - Járnuð / stýfði / bringa / stríðar / öldur
5 - Öldur / stríðar / járnuð / bringa / stýfði
Stuðlasetning 1 er röng, því of margir bragliðir, þrír, eru á eftir síðari stuðli.
Stuðlasetning 2 er röng, því of margir bragliðir, tveir, eru á milli stuðla.
Stuðlasetning 3 er röng, því of margir bragliðir, þrír, eru á milli stuðla.
Stuðlasetning 4 er röng, því hvorugur stuðullinn er í hákveðu.
Stuðlasetning 5 er röng, því of margir bragliðir, tveir, eru á milli stuðla.

Reyndar er auðvelt að stuðla fimm bragliða ljóðlínur rétt ef farið er eftir eftirfarandi reglu: Ef ekki er stuðull í þriðja braglið verða stuðlarnir að vera í fjórða og fimmta braglið. Í ljóðlínum með fjórum bragliðum er reglan enn einfaldari.Stuðull skal vera í þriðja braglið. Þá er rétt stuðlað.

Rím

Þegar tvö orð hljóma eins frá og með fyrsta sérhljóði er talað um alrím: smjaðra, blaðra. Ef eingöngu samhljóðin hafa sama hljóm er talað um sniðrím eða skothent rím: þvaðra, flyðra. Ef rímorð eru eitt atkvæði (ljóð, þjóð) er það kallað einrím eða karlrím. Ef rímorð eru tvö atkvæði (dagur, bragur) er það kallað tvírím eða kvenrím. Ef rímorð eru þrjú atkvæði (lappirnar, klappirnar) er það kallað þrírím eða veggjað rím.

Rím er ýmist þversetis eða langsetis. Ef rím er þversetis eru rímorðin innan sömu ljóðlínu:

Frammi statt þú, er fæddir Drottin,
fyrir skínandi barni þínu.
Eysteinn Ásgrímsson

Ef rím langsetis eru rímorðin ekki í sömu ljóðlínu:

Allt, sem ég hef ort og sagt, er einskis virði,
því botninn er suður í Borgarfirði.
Káinn (Kristján Níels Jónsson)

Rím getur verið bæði þversetis og langsetis:

Sagan líður sæt og blíð
sorgarlaust um tjöldin.
Engin stríð né atómhríð,
aldrei deilt um völdin.
Þórarinn Eldjárn

Sé rímað langsetis og rímorð eru í enda ljóðlínu er talað um endarím. Endarím er ýmist runhendurím:

Hlam heinsöðul
við hjaldrröðul.
Beit bengrefill,
þat vas blóðrefill.
Egill Skallagrímsson

eða víxlrím:

Sálar minnar sorg ei herð,
seka Drottinn náðar,
af því Jesús eitt fyrir verð
okkur keypti báðar.
Agnes Magnúsdóttir
(Kveðið til Skáld-Rósu)

Vinsælasta innrímið hefur löngum verið það hringhenda. Það er í ferskeyttum vísum og rímar þá annar bragliður fyrstu ljóðlínu við annan braglið annarrar, þriðju og fjórðu ljóðlínu.

Aðrir söndum svölum frá
súðagöndum mjúkum
fram með ströndum strangan sjá
stýra þöndum dúkum.
Jón Rafnsson

Í þessu dæmi er innrímið alveg hreint, bragliðirnir ríma hver við annan. Þó er miklu algengara að hirða lítt um seinna atkvæði bragliðarins þegar innrím er mikið. Það er sjálfsagt og vísan heldur þeim blæ sem til var ætlast:

Komum, þúsund linda lands
ljóðið fús að heyra,
sem að húsi huldumanns
hlustar músareyra.
Jón Rafnsson

Þetta leyfi gildir eingöngu um innrím. Endarím skal ætíð vera nákvæmt.

©   1994 - 2010   Jón Ingvar Jónsson