©   1994 - 2013   Jón Ingvar Jónsson Rímnahættir  Bragorðaskrá  Upphafssíða

B r a g f r æ ð i
Gagaraljóð

Í gagaraljóðum eru allar fjórar ljóðlínurnar stýfðar og hver um sig er fjórir bragliðir. Endarímið er víxlrím, því fyrsta og þriðja ljóðlína ríma saman annars vegar, en önnur og fjórða ljóðlína hins vegar. Stuðull verður að vera í þriðja braglið fyrstu og þriðju ljóðlínu og höfuðstafur í fyrsta braglið annarar og fjórðu ljóðlínu. Svona líta gagaraljóð út:

Held ég / taumi / höndum / tveim.
Hjálpar/ljós í / glugga / skín.
Nú er / þungt að / hugsa / heim,
- hún er / veik og / bíður / mín.
Jóhannes úr Kötlum
Þegar rímorð fyrstu og þriðju ljóðlínu annars vegar og annarar og fjórðu ljóðlínu hins vegar mynda sniðrím er hátturinn nefndur gagaravilla:
Ekki' er / hent mér / orða / val,
óbreytt / kvæðin / löngum / þyl,
bernsku/legt sem / barna/tal,
bragi / dýra / ekki / skil.
Guðmundur Bergþórsson á Arnarstapa
Gagaraljóð eru á engann hátt frábrugðin samhendu og stafhendu hvað skipan bragliða varðar. Það mætti reyndar líta á þessa hætti sem þrjú mismunandi rímafbrigði við sama rímnahátt.

©   1994 - 2010   Jón Ingvar Jónsson