©   1994 - 2013   Jón Ingvar Jónsson Rímnahættir  Bragorðaskrá  Upphafssíða

B r a g f r æ ð i
Ferskeytla

Ferskeytla er án efa vinsælasti bragarhátturinn, bæði í rímum og lausavísum og hún kemur strax fyrir í elstu rímu sem menn þekkja. Endarímið er víxlrím, því fyrsta og þriðja lína, sem eru stýfðar, ríma saman annars vegar en önnur og fjórða lína, sem ekki eru stýfðar, ríma saman hins vegar. Í fyrstu og þriðju línu eru bragliðir fjórir en bragliðir eru þrír í annari og fjórðu línu hins vegar. Stuðull verður að vera í þriðja braglið fyrstu og þriðju línu og höfuðstafur í fyrsta braglið annarar og fjórðu línu. Svona lítur ferskeytla út:

Margur / fengi / mettan / kvið,
má því / nærri / geta,
yrði / fólkið / vanið / v
vind og / snjó að / éta.
Jón Þorláksson

Ferskeytla og draghenda eru einu rímnahættirnir sem hægt er að yrkja sléttubönd undir en sléttubandavísur er hægt að lesa aftur á bak jafnt sem áfram. Til þess að það sé mögulegt verða vísurnar að vera síðstuðlaðar og fyrsti bragliður fyrstu línu að ríma við fyrsta braglið þriðju línu.

Sóma / stundar, / aldrei / ann
illu / pretta / táli,
dóma / grundar, / hvergi / hann
hallar / réttu / máli.
Jón Þorgeirsson

Þessi vísa er líka rétt ferskeytla sé hún lesin aftur á bak. Reyndar er hún svo haglega gerð, að þá snýst merkingin gjörsamlega við.

Máli / réttu / hallar / hann,
hvergi / grundar / dóma,
táli / pretta / illu / ann,
aldrei / stundar / sóma.
©   1994 - 2010   Jón Ingvar Jónsson